© BIG (VB MYND/BIG)
Útgáfa ríkisbréfa á markaði verður mun minni á næsta ári en á yfirstandandi ári, miðað við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2012 sem lagt var fram um helgina. Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni í dag og segir að áform um endurskipulagningu á skuldum ríkissjóðs kunni þó að leiða til þess að hrein ríkisbréfaútgáfa á komandi ári verði nokkru meiri en ella. Í frumvarpinu er hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs á næsta ári áætluð 11 milljarðar. Til samanburðar er þessi tala áætluð 71 milljarður fyrir árið í ár.

Auk þess mun ríkissjóður gefa út ríkisbréf til að endurfjármagna gjalddaga ríksibréfaflokksins RIKB12 á næsta ári, en hann er ríflega 49 milljarðar að stæðr. Alls er áætlað aðs taða ríkisbréfa og víxla aukist um 90,7 milljarða frá árslokun 2010 til ársloka 2012.

„Hreinn lánsfjárjöfnuður er áætlaður neikvæður um ríflega 39 ma.kr. á árinu 2012. Munurinn á þeirri tölu og hreinu lánsfjárþörfinni liggur í því að innstæður ríkissjóðs hjá Seðlabankanum verða lækkaðar um rúma 28 milljarða króna. Ríkissjóður á nú u.þ.b. 95 milljarða í innstæðum hjá Seðlabanka, en áætlað er að innstæðurnar verði til muna hærri um næstu áramót. Væntanlega er þar gert ráð fyrir að andvirði ríkisbréfaútgáfu það sem eftir er árs renni meira og minna óskert inn í Seðlabanka þar sem jafnvægi, eða jafnvel afgangur, verði í sjóðstreymi ríkissjóðs á tímabilinu,“ segir í Morgunkorni.

„Á næsta ári er áætlað að hefja endurskipulagningu á skuldum ríkissjóðs með útgáfu ríkisbréfa til niðurgreiðslu á ómarkaðshæfum bréfum ríkissjóðs, verði aðstæður fyrir hendi. Hér er átt við skuldabréf sem ríkissjóður lagði inn í Seðlabankann í því skyni að leggja honum til eigið fé eftir bankahrunið. Skuldabréf þetta er verðtryggt og er höfuðstóll þess nú u.þ.b. 171 ma.kr. Samkvæmt áætlun á að greiða bréfið niður um 16 ma.kr. á næsta ári, en hvort það gengur eftir veltur þó á því hversu hagfelldar markaðsaðstæður verða. Bréfið er svo á gjalddaga árið 2014.“