Framtakssjóður Íslands ákvað á ársfundi sínum nýverið að laun stjórnarmanna úr 100 þúsund krónum á mánuði í 180 þúsund. Þetta er 80% launahækkun á milli ára.

Landsbankinn á 27,6% hlut í Framtakssjóðnum, Lífeyrissjóður verzlunarmanna á 19,9% hlut og lífeyrissjóðurinn Gildi á 10,4%. Fjórtán aðrir lífeyrissjóðir eiga minni hlut í sjóðnum.

Stjórnarmenn Framtakssjóðsins eru sjö talsins ásamt Þorkatli Sigurlaugssyni stjórnarformanni. Varamenn eru fjórir. Fram kemur í ársskýrslu sjóðsins fyrir síðasta ár að 23 stjórnarfundir hafi verið haldnir á síðasta ári.

Framtakssjóðurinn á Icelandic Group, nærri helmingshlut í Promens, 15,8% í N1 og tæp 20% í Icelandair Group. Þá á sjóðurinn eignarhaldsfélagið Vestia sem á m.a. Plastprent og fleiri smærri eignarhluti í fyrirtækjum. Hagnaður sjóðsins nam rúmum 2,3 milljörðum króna á síðasta ári.

ASÍ mótmælir launastefnunni

Fram kom í vikublaðinu Reykjavík fyrir helgi að miðstjórn Alþýðusambands Íslands hafi lagst gegn launahækkuninni og sagt hana ekki aðeins úr takti við þann veruleika sem almennt launafólk búi við heldur fari ákvörðunin með öllu gegn þeim markmiðum sem ASÍ hafi sett um siðferði og sam­félagslega ábyrgð í ákvörðunum lífeyrissjóðanna.

Þá kemur fram í blaðinu að ASÍ hafi á ársfundum ítrekað ályktað að sjóðirnir beiti sér gegn því að ofurlaunakerfið verði tekið upp aftur. Ákvörðum Framtakssjóðsins sé því í andstöðu við þá stefnu.