Launakostnaður Ríkisútvarpsins hækkaði um tæpan hálfan milljarð í fyrra eða 15%. Stöðugildum fjölgaði um nítján á árinu og eru nú 273 auk verktaka.

Stjórn RÚV fjallaði um ársreikninginn á fundi sínum þann 22. mars. Fram kemur í fundargerð að rekstrartekjur hafi verið hátt í níu milljarðar og aukist um 10% milli ára. Alls hækkaði rekstrarkostnaður um 9% milli ára og eða um 670 milljónir en ekki kemur fram í fundargerðinni hver heildarrekstrarkostnaður hafi verið. Ríkisútvarpið skilaði sex milljón króna hagnaði í fyrra en tap af rekstrinum árið 2022 nam tæpum hálfum milljarði.

Í fundargerðinni er fjallað um skýrslu endurskoðenda á ársreikningnum. Þar kemur fram að handbært fé frá rekstri nam 460 milljónum króna og lækkaði um 290 milljónir milli ára. Fram kemur að lækkunin skýrist að stærstum hluta af auknum birgðum sýningarrétta. Birgðirnar námu samtals 2,9 milljörðum við árslok 2023.

Frestuðu dagskrárliðum en héldu innkaupum áfram

Fram kemur í fundargerðinni að þetta skýrist af því á sama tíma og reynt var að draga úr rekstrarkostnaði í fyrra meðal annars með því að fresta dagskrárliðum sem skýrir hækkun á virði sýningarrétta milli ára. Endurskoðendur benda á að stjórnendur hefðu átt að draga úr innkaupum á sama tíma og reynt var að koma böndum á rekstrarkostnaði á móti frestuðum dagskrárliðum. Tap hefði orðið á rekstrinum ef ekki hefði komið til frestun sýninga á síðari hluta ársins.

Fram kemur í fundargerðinni að unnið sé að úrbótum og „aðhaldi til að tryggja jafnvægi í rekstri og greiðslum félagsins.“