Samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er launamunur kynjanna í Evrópu allt frá 100 evrum, eða rúmum 15 þúsund íslenskum krónum, og til 700 evra, eða 107 þúsund króna, á mánuði. Konurnar sem eru í neðstu 10% þéna 100 evrum minna en lægst launuðu karlarnir. Þær 10% kvenna sem þéna mest voru með 700 evrum minna en sama hlutfall hæst launuðu karlanna.

Alþjóðavinnumálastofnunin skoðaði menntun, reynslu, stöðu, geira, staðsetningu og álag vinnu í 38 ríkjum um allan heim. Samkvæmt skýrslunni voru konur með betri samsetningu þessara þátta í um helmingi ríkjanna sem skoðuð voru, en fengu samt umtalsvert lægri laun en karlar. Samkvæmt frétt BBC um málið segir að vísbendingar séu um að konur séu betur menntaðar eða vinni meira en karlar, en fái samt talsvert minna borgað.

“Raunverulegt bil er frá um 4% og að 36% í þeim 38 ríkjum sem við skoðuðum,” segir hagfræðingurinn Kristen Sobeck hjá stofnuninni. Hluti þessa bils er óútskýrt að því er fram kemur í skýrslunni.

Í skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um laun kemur einnig fram að launavöxtur er mestur í Asíu og Eyjaálfu. Að meðaltali hækkuðu laun á svæðinu um 6% árið 2013 á meðan meðalhækkun í heiminum var 2%. Þrátt fyrir miklar hækkanir eru laun víða í Asíu mun lægri en í þróuðum hagkerfum. Einn af hverjum þremur komast enn ekki upp fyrir fátæktarþröskuldinn, sem er tveir dollarar á dag.