Evrópski seðlabankinn hefur ákveðið að hætta ekki að veita grískum bönkum lausafjáraðstoð, eins og óttast hafði verið og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag. Hins vegar var ákveðið á fundi innan seðlabankans í dag að hækka ekki þá fjárhæð sem grísku bankarnir geta fengið lánaða.

Í frétt BBC segir að þessi ákvörðun seðlabankans auki líkur á því að grískir bankar loki og að takmörk verði sett á reiðufjárúttektir úr grískum bönkum.

Núna er þakið á lausafjáraðstoð evrópska seðlabankans til grískra banka 89 milljarðar evra, en ekki er ljóst eins og stendur hvort grísku bankarnir hafi gengið á lánalínu alla, eða hvort eitthvað sé eftir.

Þrátt fyrir að ekki hafi verið lokað fyrir lausafjáraðstoðina eru enn líkur á því að grískir bankar verði lokaðir á morgun og að gjaldeyrishöft í einhverri mynd verði sett á.