Ekki alls fyrir löngu var greint frá því að hagfræðingarnir Alvin E. Roth og Lloyd S. Shapley hlytu nóbelsverðlaunin í hagfræði. Báðir hafa unnið að formúlum og kenningum tengdum leikjafræði, einkum því sem kalla mætti kenninguna um stöðug hjónabönd og afleiður af henni. Um er að ræða einn anga af leikjafræði, hjónabandsvandamálið svokallaða: Til eru jafnmargar konur og karlar og finna þarf leið til að koma þeim öllum í hjónaband þar sem eftirfarandi aðstæður eru ekki til staðar: a) Að til sé kona sem vilji frekar vera með einhverjum öðrum manni en sem hún er nú gift og b) að maðurinn sem hún girnist vilji frekar þessa konu en þá konu sem hann þegar kvæntur.

Shapley skrifaði algóritma sem tryggir það að allir einstaklingarnir eru trúlofaðir og geta ekki fundið betri maka en þann sem þeir eru þegar með. Að sjálfsögðu er hér um að ræða ímyndað vandamál, en lausnin hefur hins vegar verið notuð til að leysa raunveruleg vandamál og hefur Roth unnið mikið að slíkum verkefnum. Aðlagaði hann t.d. algóritma Shapleys til að leysa ýmis vandamál í mennta- og heilbrigðisgeiranum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.