Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra telur æskilegast að ráðist sé sem fyrst í nauðasamninga þeirra fjármálafyrirtækja sem nú eru á forræði slitastjórna og þess þannig freistað að koma þrotabúum í hendur réttra eigenda og greiða fyrir viðskiptum með hluti í þeim. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokks.

Þar segir jafnframt að ráðherra telji „einsýnt að nauðasamningar séu fljótvirkasta og skynsamlegasta leiðin til að koma þrotabúunum í hendur réttra eigenda og skapa þar með beint samband eigenda og stjórnenda í a.m.k. tveimur af þremur stóru bankanna. Ávinningur af slíku er augljós, sérstaklega í ljósi þess umboðs- og stjórnunarvanda sem einkennt hefur endurreisn fjármálakerfisins og gerð er skýr grein fyrir í nýútkominni skýrslu Samkeppniseftirlitsins." 

Aðspurður um fjölda starfsmanna slitastjórna fjármálafyrirtækja segir ráðherra þær upplýsingar ekki liggja fyrir.