Forsætisráðuneytið hefur upplýst lögregluna á höfuðborgarsvæðinu um meintan upplýsingaleka frá Seðlabankanum til RÚV í aðdraganda húsleitar hjá Samherja árið 2012. Þegar húsleitin fór fram voru starfsmenn RÚV mættir við skrifstofur Samherja í Reykjavík og á Akureyri. Greint var frá þessu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Upplýst er að Ingibjörg Guðbjartsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, hafi átt í samskiptum við starfsmann RÚV. Ingbjörg hefur töluvert verið í fréttum undanfarið vegna 8 milljóna króna námsstyrks sem hún fékk frá Seðlabankanum til að stunda nám við Harvard háskóla. Auk styrksins fékk hún 60% launa sinna greidd þann tíma sem hún var í námi, sem voru 12 mánuðir.

Bréf Seðlabankans til forsætisráðherra

Í bréfi sem Seðlabankinn skrifar forsætisráðherra og dagsett er 18. ágúst síðastliðinn kemur fram að skoðun innri endurskoðanda hafi leitt í ljós að í fyrrverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlitsins hafi átt í tölvupóstsamskiptum við starfsmann RÚV á tímabilinu frá 20. febrúar 2012 til 26. mars 2012.  Húsleitin hjá Samherja fór fram 27. mars. Viðskiptablaðið er með afrit af þessu bréfi sem og svarbréfi forsætisráðherra.

„Áður hefur komið fram að gjaldeyriseftirlitið var í sambandi við fréttamann Ríkisútvarpsins vegna upplýsinga sem fréttamaðurinn veitti því. Samskipti framkvæmdastjórans við fréttamanninn virðast hafa tengst því og í engum póstanna eru trúnaðarupplýsingar sendar fréttamanninum," segir í bréfi bankans, sem undirritað er af Má Guðmundssyni, þáverandi Seðlabankastjóra og Sigríði Logadóttur, aðallögfræðingi bankans. „Í einum pósti frá fréttamanninum til framkvæmdastjórans sem sendur er daginn fyrir húsleitina virðist sem fréttamaður Ríkisútvarpsins hafi haft upplýsingar um húsleitina áður en hún átti sér stað. Í athugun bankans kemur ekkert fram sem upplýsir hvernig fréttamaðurinn öðlaðist þær upplýsingar. Ekkert svar við póstinum er að finna í pósthólfi framkvæmdastjórans."

Í bréfi Seðlabankans til forsætisráðherra kemur fram að bankinn hafi nú tæmt þau úrræði sem honum standi til boða til að komast frekar til botns í málinu og muni hann því ekki aðhafast frekar. Ennfremur segir að kæra til lögreglu komi ekki til greina þar sem möguleg sök er fyrnd. Í bréfinu segist Seðlabankinn líta svo á upplýsingar í bréfinu séu háðar þagnarskyldu.

Bréf ráðherra til Seðlabankans

Forsætisráðherra bregst við bréf Seðlabankans með bréfi sem sent var  þann 11. september síðastliðinn og stílað á Ásgeir Jónsson, en hann hafði tekið við seðlabankastjórastöðunni af Má á þessum tíma.

„... með hliðsjón af því að háttsemi af þessu tagi kann að fela í sér refsivert brot hefur forsætisráðuneytið ákveðið, án þess að því felist nokkur efnisleg afstaða ráðuneytisins til hugsanlegrar sektar einstakra starfsmanna bankans, að upplýsa embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um framangreinda niðurstöðu rannsóknar innri endurskoðanda Seðlabankans ..." segir í bréfi ráðherra til seðlabankastjóra. „Ráðuneytið tekur fram að það telur rétt að upplýsa embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um þetta óháð því hvort hugsanleg lögbrot kunni að vera fyrnd enda sé það jafnframt hlutverk þeirra sem fara með lögregluvald að leggja mat á það réttaratriði."