*

mánudagur, 13. júlí 2020
Erlent 5. janúar 2020 19:16

Leyndardómsfulla súkkulaðiveldið

Meðlimir næstríkustu fjölskyldu heims forðast athygli eins og heitan eldinn og veita nær aldrei leyfi fyrir viðtölum eða myndatökum.

Ingvar Haraldsson
Jacqueline Mars með tveimur barnabarna sinna. Þau eru ein af örfáum fjölskyldumeðlimum sem hafa leyft að láta mynda sig opinberlega.
epa

Í sjö mínútna akstursfjarlægð frá höfuðstöðvum bandarísku leyniþjónustunnar CIA í McLean í Virginíu, úthverfi Washington D.C. er önnur bygging sem ekki lætur mikið yfir sér. Þó segja sumir að meiri leynd hafi ríkt um hvað gerist innan veggja byggingarinnar en innan höfuðstöðva bandarísku leyniþjónustunnar. Byggingin hýsir höfuðstöðvar Mars-súkkulaðiveldisins en gengur stundum undir viðurnefninu Kreml. Fyrirtækið var stofnað árið 1920 af Franklin Clarence Mars, sem jafnan var kallaður Frank Mars. Eftirlifandi afkomendur hans eru í dag meðlimir næstríkustu fjölskyldu heims. Auður fjölskyldunnar er metinn á yfir 127 milljarða dollara, jafnvirði um 15.600 milljarða króna. Einungis Walton-fjölskyldan, aðaleigandi Walmart-verslunarkeðjunnar, er talin ríkari.

Mars-fjölskyldan hefur reynt að halda sig frá opinberri umfjöllun eins og hægt er. Fjölmiðlum hefur örsjaldan verið veitt viðtöl og flestir fjölskyldumeðlimir hafa neitað að láta ljósmynda sig opinberlega. Fyrirtækið birtir ekki ársreikninga eða rekstrarniðurstöðu og hefur alla tíð veitt eins litlar upplýsingar um reksturinn og það kemst upp með. Engu síður framleiðir fyrirtækið mörg af þekkustu vörumerkjum heims. Meðal þeirra eru sælgætistegundirnar Mars, Snickers, Milky Way, M&M, Maltesers, Twix, Galaxy, Skittles, dýrafóðrið Whiskas og Pedigree, Uncle Ben’s hrísgrjónin, auk Wrigley og Extra tyggjógúmmísins.

Brokkgeng upphafsár

Frank Mars fæddist árið 1883 í Minnesota í Bandaríkjunum. Hann smitaðist ungur af mænusótt og átti erfitt með gang eftir það. Móðir hans sá honum því fyrir menntun í eldhúsinu heima, þar sem hann lærði um leið að búa til súkkulaði í höndunum. Á þeim grunni stofnaði Franklin Mars Mar-O-Bar Company árið 1920 sem varð að súkkulaðiveldinu Mars. Eða þannig rekur fyrirtækið sjálft í það minnsta söguna á heimasíðu sinni.

Saga Mars er þó fleiri þyrnum stráð en stjórnendur fyrirtækisins vilja láta líta út fyrir. Frá unglingsaldri reyndi Frank Mars að framleiða eigin súkkulaði sem hann seldi heildsölum með misjöfnum árangri. Rekstur hans fór tvívegis í þrot áður en hann stofnaði Mar-O Bar Company. Rekstur þess gekk sæmilega og komst Frank í ágætar álnir þegar leið á þriðja áratuginn. Nokkur af þekktustu vörumerkjum fyrirtækisins urðu til á þessum árum, á borð við Milky Way og Snickers, sem var nefnt eftir uppáhaldshesti fjölskyldunnar.

Illvíg fjölskyldudeila

Það var hins vegar sonur hans, Forrest Mars eldri, sem á stærstan þátt í að Mars varð að einu af stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna. Forrest fæddist árið 1904, fyrsta barn hjónanna Ethel og Frank Mars. Þau skildu skömmu síðar. Ethel sendi Forrest til Kanada eftir skilnaðinn þar sem hann ólst upp með móðurömmu sinni og móðurafa. Það varð til þess að Forrest átti í takmörkuðu sambandi við föður sinn í æsku. Það átti sinn þátt í að samband feðganna varð ætíð stirt. Forrest lauk námi í iðnaðarverkfræði í Berkeley og Yale hóf í kjölfarið störf hjá fyrirtæki föður síns. Feðgunum gekk illa að vinna saman. Hinn verkfræðimenntaði og skapbráði Forrest taldi lausatök einkenna framleiðslu og stjórnun fyrirtækisins. Síðasta hálmstráið var þegar Forrest vildi hefja útrás til Kanada og krafðist um leið að fá afhentan þriðjungshlut í fyrirtækinu. Frank ákvað því að senda son sinn til Evrópu með 50 þúsund dollara í vasanum og söluréttinn að Milky Way súkkulaði erlendis.

Forrest hóf að ferðast um Evrópu og vann meðal annars hjá Nestlé í Sviss þar sem hann lærði nýjar leiðir til að vinna súkkulaði. Forrest endaði á að kom á fót verksmiðju í bænum Slough á Englandi. Í seinni tíð er bærinn helst þekktur sem sögusvið sjónvarpsþáttanna The Office. Þar tókst Forrest að byggja upp farsælan rekstur, bæði í sölu á súkkulaði og hundamat. Sérstakt fóður fyrir dýr var þá ekki algengt en á löngum ferli tókst Forrest að sannfæra sífellt stærri hluta dýraeigenda um nauðsyn þess að dýrin ættu ekki að borða það sama og aðrir á heimilinu. Tveimur árum eftir að Forrest fór til Evrópu lést Frank Mars úr hjartaáfalli 51 árs að aldri. Þá tók fjölskylda síðari eiginkonu hans, sem hét einnig Ethel, yfir eignarhald fyrirtækisins og neitaði Forrest um eignarhlut. Við tók áratugalöng barátta um yfirráð í fyrirtækinu.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér.

Stikkorð: Mars CIA Forrest Mars