Lidl Magyaroszág, félag sem heldur utan um rekstur þýsku alþjóðlegu matvöruverslunarkeðjunnar Lidl í Ungverjalandi, hefur hótað Borgun hf. (SaltPay á Íslandi) málsókn. Er málshöfðunarhótunin tilkomin vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar færsluhirðasamnings. Krafa matvörukeðjunnar vegna miska nemur um 202 milljónum króna. Þetta kemur fram í skýringu í ársreikningi Borgunnar fyrir árið 2020.

Í skýringunni kemur fram að Borgun hafi sent samskipti um að félagið myndi mögulega þurfa að slíta viðskiptasambandinu. Áður en Borgun hafi látið af því verða hafi Lidl fært sig til annars færsluhirðis. Borgun hafi því ekki samþykkt að félagið hafi valdið skaða vegna þessa máls. Ekki sé hægt að segja fyrir um fjárhagsleg áhrif málsins á Borgun að svo stöddu.

Þjónustuaðili krefst greiðslu ógreiddra þóknanna

Að auki segir í skýringu í ársreikningi Borgunar að Snorrason-Holding ehf., einn af þjónustuaðilum Borgunar, hafi sent Borgun bréf og krafist greiðslu ógreiddra þóknanna. Snorrason-Holding hafi verið með samning um tæknilega þjónustu síðan í nóvember 2016. Uppi standi ágreiningur er varði einhliða hækkun þóknunar á reikningum Snorrason-Holding. Heildarfjárhæð kröfunnar séu 113 milljónir króna og líkt og í ofangreindu máli sé ekki hægt að segja fyrir um fjárhagsleg áhrif málsins á Borgun að svo stöddu.