Umræðan um 3,5% raunávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna hefur tekið U-beygju frá því fyrir hrun. Þá var rætt um að hækka kröfuna. Í núverandi umhverfi er nánast ómögulegt að uppfylla hana.

Fyrir nokkrum árum var rætt um hvort 3,5% raunávöxtunarkrafa væri ekki alltof lág. Í dag er þetta komið á hinn endann,“ segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis. Hann segir að vissulega ræði menn sín á milli hvort lækka þurfi kröfuna. „En fyrst og fremst er hugsað um hvernig við náum þessari ávöxtun en það er ekki auðvelt mál í dag. Umræða um hinn punktinn fylgir óneitanlega, hvort ástæða sé til að endurskoða þetta viðmið. Ég myndi þó ekki segja að sú umræða sé komin áleiðis.“

Fjárfestingarkostir fáir

Hrafn Magnússon, formaður samtaka lífeyrissjóða, segir ástandið óvenjulegt á verðbréfamörkuðum í dag, en ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði er undir raunávöxtunarkröfu við tryggingafræðilega athugun. „Í rauninni eru engir markaðsvextir til í landinu. Þeim er handstyìrt niður á við. Þegar vextirnir eru svo lágir getum við ekki komið frá okkur fjármunum,“ segir Hrafn. Hann bendir á að ríkisskuldabréf séu svo til eini fjárfestingarkostur sjóðanna. „Við getum ekki fjárfest erlendis, það eru engin viðskipti með hlutabréf og lán til sjóðsfélaga í lágmarki.“

Árni tekur í sama streng og segir tækifærin fá. „Ennfremur hafa stórar framkvæmdir, sem lífeyrissjóðirnir ætluðu að koma að og hefur verið talað um mjög lengi, ekki gengið eftir. Það er ekki enn búið að semja um eina einustu fjárfestingu. Staðan er því þröng í augnablikinu.“

Hrafn segir erfitt að meta aðstæður út frá núverandi ástandi en ekki sé gert ráð fyrir að það ríki að eilífu. „Ef litið er til ávöxtunar sjóðanna á árunum 1990 til 2006 sést að hún var mjög góð. Fimm og tíu ára meðaltöl ávöxtunar voru 5-6%. Þá var umræða um að hækka raunávöxtunarkröfuna. En árið 2008 var auðvitað skelfilegt og fimm og tíu ára meðaltöl verið undir 3,5%. Ef við sjáum ekki til lands í þessu vaxtaumhverfi þá er ástæða fyrir lífeyrissjóðina að færa ávöxtunarkröfuna niður.“ Hann telur þó að best sé að anda með nefinu, láta árið líða og sjá hvernig það kemur út. „Ef sjóðirnir telja ástæðu til að færa niður ávöxtunarkröfuna þá verði það gert í áföngum og á lengra tímabili.“

-Nánar í Viðskiptablaðinu.