Helstu lífeyrissjóðir landsins neituðu að fjárfesta í Högum á meðan Jóhannes Jónsson var stjórnarformaður fyrirtækisins og honum var tryggður forkaupsréttur á hlutum í félaginu. Samkvæmtheimildum Viðskiptablaðsins kom þessi skoðun stjórnenda sjóðanna mjög skýrt fram á kynningarfundum sem fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hélt fyrir lífeyrissjóðina fyrr á þessu ári.

Ástæða þess að sjóðirnir vildu ekki vinna með Jóhannesi er sú að þeir töpuðu gríðarlegum fjárhæðum á því að kaupa skuldabréf í fyrirtækjum sem tengdust Jóhannesi og Jóni Ásgeiri syni hans fyrir bankahrun. Á meðal félaga sem tengdust feðgunum og öðrum fjölskyldumeðlimum þeirra sem gáfu út skuldabréfaflokka fyrir tugi milljarða króna voru Baugur, FL Group/Stoðir, Landic Property, 365 og Mosaic Fashion.

Endurheimtir af skuldabréfum þessara félaga hafa í besta falli verið mjög litlar og í verstu tilfellunum hafa þau verið afskrifuð að öllu leyti í bókum lífeyrissjóðanna.