Hagstofan hefur í tilefni evrópska hagtöludagsins sett upp lífsgæðavog sem á að gefa notendum kleift að meta lífsgæði sín í samanburði við aðra Evrópubúa.

Evrópski hagtöludagurinn er haldinn að tilstuðlan Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) og er vogin byggð á samræmdri rannsókn hagstofa Evrópulandanna undir þeirra leiðsögn.

Meginmarkmið hennar er að draga upp mynd af dreifingu lífskjara og lífsgæða í Evrópulöndunum.

Norðurlöndin og Sviss oftast efst

Felst vogin í 10 spurningum þar sem svarendur eru beðnir um að staðsetja sig á skalanum 1-10 og síðan eru svör notenda borin saman við meðaltalssvör í Evrópulöndunum.

Kemur þar fram að íbúar Möltu finna fyrir mesta öryggi við að ganga ein á götu að nóttu til, Danir beri mest traust til réttarkerfisins, Austurríkismenn séu ánægðastir með nánasta umhverfi sitt og ánægjan með fjárhaginn er mest í Danmörku og Svíþjóð.

Mest ánægð er með eigin húsnæði í Danmörku, Finnlandi og Sviss, starfsánægjan er mest í Danmörku og Finnlandi, mesta ánægjan er með tímanotkun í Danmörku, heilsufarið er best á Írlandi, mesta ánægjan er með félagsleg tengsl í Sviss og lífsánægjan er mest í Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og Sviss.