Greiningardeild Glitnis telur að útlit sé fyrir að innflutningur hafi dregist verulega saman og útflutningur aukist nokkuð frá fyrri mánuði í ágúst og vöruskiptahalli hafi því dregist töluvert saman milli mánaða.

Glitnir vísar til nýbirtra bráðabirgðatalna frá Hagstofu, sem gefa til kynna að verðmæti vöruútflutnings í ágúst var 16,6 milljarðar króna en innflutningur á vörum nam alls 28,3 milljörðum. Halli á vöruskiptum var því tæplega 12 milljarðar í mánuðinum. Það er þriðjungi minni halli í júlí, en þá var methalli á vöruskiptum.

?Aðstæður voru um margt sérstakar í júlí hvað útflutning varðar og því ekki að furða að brugðið hafi til betri vegar í síðasta mánuði. Til að mynda hefur álframleiðsla verið að færast í fyrra horf eftir óhapp í Straumsvík sem olli verulega skertri framleiðslugetu í júlímánuði. Við bætist að útflutningur frá álverinu á Grundartanga eykst nú jafnt og þétt eftir því sem 130 þúsundtonna stækkun þar er tekin í gagnið. Einnig bendir ýmislegt til þess að birgðastaða sjávarafurða hafi verið með mesta móti í lok júlímánaðar," segir greiningardeildin.

?Athyglisvert er þó að viðsnúningurinn í vöruskiptahallanum á fyrst og fremst rætur í minnkandi innflutningi, en á föstu gengi dróst verðmæti hans saman um 16% milli mánaða á sama tíma og útflutningur jókst um 7,5% mælt með sama hætti. Ekki liggur enn fyrir í hvaða vöruflokkum innflutningur dróst saman en þó má til að mynda nefna að nýskráningar bifreiða voru með minnsta móti í mánuðinum ef miðað er við undanfarna mánuði."

Greiningardeildin segir að auk þess var óvenju mikið flutt inn af eldsneyti í júní og júlí og ekki ólíklegt að birgðir hafi verið með mesta móti í upphafi ágústmánaðar.

?Þar að auki kann að vera að innflutningur fjárfestingarvara hafi náð hámarki í sumar og er hugsanlegt að þar dragi nú heldur úr þegar framkvæmdir tengdar stóriðju komast á lokastig," segir greiningardeild Glitnis.