30 mál eru á dagskrá Alþingis, en einungis eitt þeirra hefur verið rætt það sem af er degi. Þingfundur hófst klukkan 13.30 en hlé hefur verið gert fram til klukkan 20 í kvöld.

Meðal þess sem er á dagskrá þingsins eru breytingar á vopnalögum, lögum um meðferð sakamála, einkamálalögum, jafnréttislögum og fleira. Þrjú mál eru nú til fyrstu umræðu, en það eru lög um eflingu tónlistarnáms, veiting ríkisborgararéttar, auk breytinga á lögum um heimild handa innanríkisráðherra til að fjármagna uppbyggingu á innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi.

Breytingin snýr að því að fjárhæðin 1.800 milljónir króna verði felld á brott úr lögunum, enda komið í „ljós að kostn­aður við hana er meiri en kveðið er á um í greininni. Ekki er hefð fyrir því að tilgreina sérstaka fjárhæð í lagaheimildum af þessu tagi, enda heimild veitt í fjárlögum. Mikilvægt er að það viðbótarfé sem veita þarf til þessa verkefnis verði ekki tekið af þeim fjármunum sem renna til almennra sam­gönguframkvæmda um landið," segir í greinargerð með frumvarpinu.