Framleiðslufyrirtækið Loftorka Borgarnesi ehf., sem sérhæfir sig í mannvirkjagerð, hefur ákveðið að flytja öll bankaviðskipti sín til Glitnis og tekur samningurinn til allra bankaviðskipta. Glitnir mun meðal annars hafa umsjón með fjármögnun félagsins, innheimtuþjónustu, greiðsluþjónustu og annarri almennri bankaþjónustu segir í frétt á heimasíðu Loftorku.

?Loftorka er með öflugustu fyrirtækjum á Vesturlandi og hefur verið í örum vexti. Fyrirtækið er með afar hæfa stjórnendur og starfsfólk og myndar sterka kjölfestu í atvinnumálum í Borgarbyggð. Það er okkur sönn ánægja að fá Loftorku í viðskipti við bankann,? segir Jón Diðrik Jónsson, forstjóri Glitnis á Íslandi í frétt Loftorku.

?Glitnir hefur á að skipa mjög hæfu starfsfólki sem leggur sig fram um að skilja þarfir viðskiptavina og veita þeim bestu mögulega ráðgjöf á sviði fyrirtækjarekstrar og fjármála. Með því að færa öll okkar viðskipti til Glitnis höfum við tekið mikilvægt skref í þróun fyrirtækisins til framtíðar,? segir Óli Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóri Loftorku.

Loftorka Borgarnesi ehf. er alhliða framleiðslufyrirtæki á sviði mannvirkjagerðar sem sérhæfir sig í framleiðslu á forsteyptum hlutum úr steinsteypu, mestmegnis húseiningum, ásamt steinrörum í holræsi. Fyrirtækið rekur starfsstöðvar í Borgarnesi, á Akureyri, í Reykjavík og í Kópavogi. Starfsmenn Loftorku Borgarnesi ehf. eru á milli 280 og 290