Vinsælustu lögfræðingarnir í Bandaríkjunum fara fram á allt að 1.250 dali í tímakaup. Það jafngildir um 145 þúsund krónum á tímann. Nokkrir lögfræðingar fóru fram á yfir þúsund dollara í greiðslu fyrir hverja klukkustund þegar efnahagslífið blómstraði rétt fyrir hrun. Sú upphæð lækkaði þó hratt eftir að kreppan skall á.

Í umfjöllun Wall Street Journal segir að nú séu lögfræðingar aftur farnir að hækka tímataxtann og nýta sér þannig vilja ríkra viðskiptavina sem vantar ákveðna þjónustu. Haft er eftir lögfræðingi á stofunni Weil Gotshal að meginreglan sé sú að „ef þú getur fengið það, fáðu það þá“.

Þó svo að til séu dæmi um að lögfræðingar biðji um allt að 1250 dollara á tímann þá segir að það sé ekki algengt. Fæstir lögfræðingar fái greitt tímakaup í fjórum tölustöfum. Einn þeirra þekktustu er lögfræðingur að nafni Kirk A. Radke. Hann sérhæfir sig í skuldsettum yfirtökum og í myndun fjárfestingasjóða. Þeir sem vilja ráða Radke í vinnu þurfa að greiða honum rúmlega 140 þúsund krónur á tímann.