Sérstakur saksóknari taldi við upphaf rannsóknar á Al Thani-málinu svokallaða að um málamynda- eða sýndarviðskipti hafi verið að ræða. Jafnvel voru efasemdir um að Al Thani væri yfir leitt til, fullyrðir lögmaðurinn Ragnar H. Hall. Hann skrifar grein um Al Thani-málið í Fréttablaðinu í dag í tilefni af því að aðalmeðferð hefst í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í næsta mánuði. Ragnar og Gestur Jónasson voru verjendur þeirra Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, og Ólafs Ólafssonar, fjárfestis og eins af helstu hluthöfum Kaupþings fyrir fall bankans. Þeir sögðu sig frá málinu í vor og var aðalmeðferð þess frestað fram á haust þegar nýir verjendur þurftu að kynna sér gögn málsins.

Ragnar segir rangt að Kaupþing hafi tapað á viðskiptunum þegar Al Thani keypti 5% hlut í Kaupþingi nokkrum dögum áður en bankinn fór á hliðina með þeim afleiðingum að hlutabréf bankans urðu verðlaus. Ragnar segir embætti sérstaks saksóknara gera úlfalda úr mýflugu.

Hann skrifar:

„Þegar Kaupþing féll í október 2008 urðu hlutabréfin verðlaus. Af því leiddi að helmingur söluverðsins tapaðist, en hinn helmingurinn sem var tryggður með persónulegri ábyrgð Al Thanis fékkst greiddur. Rannsókn sérstaks saksóknara á þessu máli, sem er í grunninn tiltölulega einfalt mál um hlutabréfaviðskipti, varð ótrúlega umfangsmikil og tók langan tíma. Skjöl sem sérstakur saksóknari lagði fram í dómi við upphaf málarekstursins eru um 7.000 – sjö þúsund – blaðsíður. Við upphaf rannsóknarinnar virtist sérstakur saksóknari telja að samningarnir við Al Thani hefðu verið einhvers konar málamynda- gerningar eða sýndarviðskipti. Jafnvel voru efasemdir um að Al Thani væri yfirleitt til! Þegar það var komið á hreint komust rannsakendur að þeirri niðurstöðu að bankinn hefði verið betur settur með að eiga áfram bréfin í Kaupþingi heldur en að selja þau með þeim hætti sem gert var! Sú skoðun vekur efasemdir um að allir sem stýra rannsóknum hjá sérstökum saksóknara séu sérstaklega vel til þess fallnir að stýra rannsóknum efnahagsbrota yfirleitt.“