„Ég lýsti áhyggjum mínum af hagsmunaárekstri er varðar Ögmund Jónasson sem er formaður BSRB og í áberandi hlutverki mótmælenda og framvarðasveit VG.“

Þannig byrjar tölvupóstur sem lögregluvarðstjóri sendi öllum lögreglumönnum landsins í gær og Viðskiptablaðið hefur nú undir höndum en þarna vitnar varðstjórinn í samtal sem hann átti í síma við Snorra Magnússon, formann Landssambands lögreglumanna þá um morguninn.

„Þá þóttu mér ummæli hans undarleg að undanförnu og  hefur ekki legið á liði sínu við að safna sér atkvæðum með að þegja þunnu hljóði er varðar framkomu manna við lögreglu þrátt fyrir að vera formaður BSRB sem við erum aðili að,“ segir jafnframt í tölvupóstinum.

„Hann ætti sem slíkur að vera betur áttaður á starfi okkar í stað þess að krefjast endurskoðunar og rannsóknar á „ofbeldi" því er lögregla beitir eins og það er stundum orðað og finna því farveg í því að fordæma það ofbeldi sem við verðum fyrir.“

Varðstjórinn segir formann BSRB hins vegar forðast þá umræðu „vegna tengsla sinna við mótmælendur og þeirra atkvæði og sveiflast eins og strá í vindi þar sem vinsæl málefni og atkvæði er að fá,“ segir í tölvupóstinum.

Þá segist varðstjórinn hafa óskað eftir því að framkvæmd yrði könnun meðal allra lögreglumanna og hug þeirra til þess að slíta Landssamband lögreglumanna úr BSRB og „færa þangað sem hagsmunum okkar er frekar borgið,“ segir í tölvupóstinum.

Forsvarsmenn Landssambands lögreglumanna hittu þingmenn VG

Viðskiptablaðið er einnig með undir höndum svar Snorra Magnússonar þar sem hann segist hafa farið á fund Ögmundar Jónassonar til að koma á framfæri við hann, umbúðalaust eins og það er orðað, þeim ábendingum sem til hans hefðu borist.

Þar kemur fram að Ögmundur hafi vísað því á bug að hann hefði ekki tjáð sig um málefni lögreglunnar í þeirri orrahríð sem verið hefur undanfarna daga.

Þá kemur fram að Snorri hafi við annan mann átt fund í kjölfarið með Atla Gíslasyni, þingmanni VG þar sem sömu málefni voru rædd „og framganga einstakra þingmanna m.a. hans og Álfheiðar Ingadóttur í garð lögreglu,“ segir í svari Snorra.

Leiðréttu „vankunnáttu“ Atla Gíslasonar á valdbeitingartækjum

Þá kemur fram að Atli hafi, líkt og Ögmundur, lofað því að hann myndi taka þetta má upp á næsta þingflokksfundi VG.

„Við áttum þess einnig kost, á fundinum með Atla, að fara ýtarlega yfir valdbeitingartæki lögreglu og notkun þeirra en það var ljóst, í samtali okkar við hann, að hann hefur verið að tala af vankunnáttu um þessi mál,“ segir í tölvupóstinum.

„Sú vankunnátta hefur nú, vonandi, verið leiðrétt.“