Tveir íbúar Miami, þeir Paul Orshan og Christopher Endara, hafa ákveðið að höfða mál gegn Apple. Ástæðan er sú að viðskiptavinir geta ekki nýtt sér allt geymslupláss Apple tækja sem fyrirtækið auglýsir.

Samkvæmt frétt CNN um málið krefjast Orshan og Endara rúmlega fimm milljóna Bandaríkjadala í skaðabætur frá Apple, vegna meintra blekkinga fyrirtækisins.

Apple auglýsir tæki sín, síma og tölvur, með ákveðnu innbyggðu minni. Hins vegar er ekki tekið fram að IOS stýrikerfið tekur töluvert geymslupláss, sem skerðir það pláss sem eigendur tækjanna hafa til umráða. Sem dæmi tekur nýja IOS 8 stýrikerfið um þriggja GB pláss á Iphone 6, sem auglýstur er með 16 GB minni.

Orshan og Endara benda á að margir viðskiptavinir horfi á innbyggt minni þegar metið er hvaða tæki skuli kaupa. Með því að Apple skerði minnið með stýrikerfi sínu sé verið að blekkja viðskiptavini.