*

fimmtudagur, 21. október 2021
Erlent 12. júlí 2019 19:04

Loka stærstu demantanámu heims

Rio Tinto hyggst loka uppsprettu um 90% bleikra demanta í heiminum sem skilar 14 af 21 milljóna karata heimsframleiðslu.

Ritstjórn
Bleika stjarnan er bleikur demantur en langmest af því litla sem til er af þeim koma úr Argyle námunni í Ástralíu sem lokað verður á næsta ári.

Í fjóra áratugi hefur Argyle náman í vesturhluta Ástralíu verið einn helsti framleiðandi bæði verðmætustu demanta heims, sem og mikils magn minna verðmætari demanta, en nú stefnir í að hún loki.

Náman sem hefur verið fræg fyrir að vera uppspretta fágætra rauðra og bleikra demanta, hefur verði starfrækt allt frá árinu 1983, en nú hyggst Rio Tinto, eigandi hennar, hætta starfsemi þar undir lok næsta árs þegar hún verður þurrausin.

Hefur hún staðið undir um 75% af allri demantaframleiðslu fyrirtækisins, sem þó er ekki nema um 2% af tekjum þess, meðan járngrýti skilar því um 60% af tekjum sínum. Fyrirtækið hefur jafnframt lokað námum í bæði Indlandi og Zimbabwe og hyggjast þeir loka síðustu námu sinni, Diavik í Kanada árið 2025.

Einn bleikur demantur seldur á 9 milljarða

Argyle náman í Ástralíu hefur verið uppspretta um 90% af hinum eftirsóttu bleiku demöntum, en sem dæmi þá seldist 59,6 karata „Bleika stjarnan“ sem keppinautarnir í De Beers fundu á 71 milljón dala, eða sem nemur um 9 milljörðum íslenskra króna.

Þeir eru þó ekki nema 0,01% af heildarframleiðslu námunnar sem hefur verið sú ódýrasta í rekstri miðað við magn. Hún hefur jafjframt framleitt um 14 milljónir af þeim 21 milljónum karata af demöntum sem framleidd eru á ári.

Kenna því margir henni um að vera ástæða offramboðs á demöntum í heiminum. Selst hvert demantakarat úr henni á bilinu 15 til 25 dali, eða á bilinu 1.900 krónum upp í 3.200 krónur.

Lokun námunnar þýðir að ýmsir aðilar vænta þess að demantaverð fari hækkandi á ný eftir að hafa farið lækkandi síðan árið 2011. En Rio Tinto er ekki að fara að hætta í demantamarkaðnum, því félagið undirbýr samstarfsverkefni um opnun demantanámu í Saskatchewan í Kanada, sem gæti farið í gang á næstu fimm til tíu árum að því er MSN greinir frá.

Stikkorð: Ástralía demantar Rio Tinto Ástralía De Beers Argyle