LS Retail var útnefnt hugbúnaðarfyrirtæki ársins í Vestur Evrópu á Microsoft World Wide Partner Conference sem haldið var í Houston, Bandaríkjunum í seinustu viku. Það er Microsoft sem stendur fyrir valinu, að því er kemur fram í tilkynningu.

Samhliða var tilkynnt að LS Retail hefði fengið inngöngu í Inner Circle og President‘s Club fyrir Microsoft-samstarfsaðila í viðskiptalausnum. Einungis 1% söluhæstu samstarfsaðilar Microsoft fá inngöngu í Inner Circle. Þetta er þriðja árið í röð sem LS Retail fær inngöngu í Inner Circle.

Í tilkynningunni er haft eftir Magnúsi Norðdahl, forstjóra LS Retail, að það sé mikill heiður að Microsoft skuli velja íslenskt fyrirtæki sem hugbúnaðarframleiðanda ársins í Vestur Evrópu. Undanfarin tíu ár hafi það verið markmið fyrirtækisins að þróa hugbúnað sem hjálpi verslunum og veitingahúsum að bjóða upp á framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini sína.