Um síðustu áramót voru samanlagðar eignir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga (LH) 401,8 milljarðar króna og hækkuðu um 30,1 milljarð frá árinu á undan eða um 8,1%. Í árslok 2011 skiptust eignir þannig að hlutur A-deildar var 179,3 milljarðar króna, B-deildar 190,9 milljarðar króna, Séreignar LSR 9,3 milljarðar króna og eignir LH voru 22,3 milljarðar króna.

Nafnávöxtun LSR var 7,2% á árinu 2011 sem svarar til 1,8% hreinnar raunávöxtunar. Árið áður var hrein raunávöxtun LSR 2,2%. Nafnávöxtun LH var 7,1% á árinu 2011 sem svarar til 1,6% hreinnar raunávöxtunar. Árið áður var hrein raunávöxtun LH 1,8%, að því er kemur fram í tilkynningu á vefsíðu LSR.

Undanfarin 3 ár hafa eignir LSR og LH aukist um 95,3 milljarða króna. Það má að stærstum hluta rekja til ávöxtunar sjóðanna því á sama tíma hafa tekjur þeirra af fjárfestingum numið 81,6 milljörðum króna.

Í árslok 2011 voru 63,2% af eignum sjóðanna í innlendum skuldabréfum, 24,0% í erlendum verðbréfum, einkum hlutabréfum, 3,3% í innlendum hlutabréfum, 4,3% í innlánum og 5,2% í öðrum fjárfestingum.