Forsvarsmenn Lyfja og heilsu hafa undirritað samning um kaup á 90 prósenta hlut í Glerverksmiðjunni Samverki á Hellu. Seljendur eru meðal annarra Ragnar Pálsson, framkvæmdastjóri og aðaleigandi félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Samverk er stærsti framleiðandi glers á Íslandi og jafnframt elsta starfandi glerfyrirtæki landsins, en það var stofnað árið 1969. Verksmiðja fyrirtækisins er staðsett á Hellu en jafnframt er söluskrifstofa og sýningarsalur í Kópavogi.

„Það var kominn tími á breytingar og ég er mjög ánægður með þennan samning“, segir Ragnar Pálsson um söluna. „Sérstaklega er ég ánægður með það að þessi rekstur, sem skiptir miklu máli fyrir lífið hér á Hellu, verður áfram hér á Hellu.“

Að sögn Arnars Guðmundssonar, stjórnarformanns Lyfja og heilsu, er mikil ánægja með kaupin þar á bæ. „Sérsvið okkar hefur vissulega legið í heilsu- og heilbrigðisgeiranum, en við erum líka fjárfestingafyrirtæki og fjárfestum í fyrirtækjum til langs tíma. Þarna var rótgróið fyrirtæki til sölu og við sjáum mikil tækifæri á glermarkaðnum. Tækifærin liggja ekki síst í því að Samverk er fyrirtæki sem býður fjölmargar flottar glerlausnir," segir Arnar. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.