Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að halda meginvöxtum bankans óbreyttum auk þess sem hún ákvað að lækka bindiskyldu um 1,5 prósentur. Nefndin tók ákvörðun um að hækka bindiskylduna tímabundið í september úr 2% í 4% til að auðvelda Seðlabankanum stýringu á lausu fé bankakerfisins í tengslum við gjaldeyriskaup Seðlabankans og losun fjármagnshafta. Bindiskyldan er því komin niður í 2,5% frá og með næsta bindiskyldutímabili sem hefst 21. desember næstkomandi til að milda lausafjáráhrif afhendingar slitabúa gömlu bankanna á stöðugleikaframlögum.

Að sögn Más Guðmundssonar seðlabankastjóra sem kynnti ákvörðun Peningastefnunefndarinnar í morgun hefur bönkunum tekist vel til með að undirbúa sig fyrir greiðslu stöðugleikaframlaga. Þeir hafa dregið úr útlánaaukningu og breytt eignasamsetningu. „Þeir munu allir líta vel út um áramótin, jafnvel þótt það verði töluverðar greiðslur á stöðugleikaframlögum fyrir áramót,“ segir Már í samtali við Viðskiptablaðið.

VB Sjónvarp ræddi við Má.