„Ég stýri viðræðunefnd um myntbandalagið, sem er málefni Seðlabankans. Það er of snemmt að tjá sig neitt um áherslur. Það á eftir að funda í stóru samninganefndinni og mynda þennan undirhóp sem ég stýri. Svo við skulum bíða með það,“ sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, aðspurður á blaðamannafundi í dag hvaða áherslur hann myndi leggja í viðræðum við Evrópusambandið.

Már er formaður samningshóps um myntbandalags, sem er undirhópur samninganefndar Íslands, sem skipaður var vegna fyrirhugaðra aðildarviðræðna við Evrópusambandi.  Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra verður aðalsamningamaður Íslands og stýrir samninganefndinni. Í henni munu sitja, auk aðalsamningmanns, formenn tíu samningahópa og sjö aðrir nefndarmenn.