*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 22. júlí 2018 12:17

Marchionne hættir vegna veikinda

Sergio Marchionne, framkvæmdastjóri Fiat Chrysler og Ferrari, hættir tafarlaust af heilsufarsástæðum. Mike Manley tekur við.

Ritstjórn
Sergio Marchionne stjórnaði þar til í gær Fiat Chrysler, Ferrari, og iðnaðarfyrirtækinu CNH.

Sergio Marchionne, sem hefur stjórnað bílaframleiðandanum Fiat Chrysler í 14 ár, hefur lent í alvarlegum vandkvæðum eftir skurðaðgerð sem hann gekkst undir fyrir nokkrum vikum, samkvæmt Financial Times. Marchionne hættir því tafarlaust sem framkvæmdastjóri Fiat Chrysler og Ferrari, og sem stjórnarformaður CNH.

Mike Manley, framkvæmdastjóri Jeep mun taka við sem framkvæmdastjóri Fiat Chrysler, samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins sem tekin var í gær. Manley rekur bílaframleiðendurna Jeep og Ram, sem eru í eigu Fiat Chrysler, og er sagður hafa átt stóran þátt í velgengni samstæðunnar síðustu ár.

Louis Camilleri mun taka við framkvæmdastjórastöðu Marchionne hjá Ferrari, en Camilleri á sæti í stjórn Philip Morris International. John Elkann verður stjórnarformaður.

Hjá iðnaðarfyrirtækinu CNH tekur Suzanne Heywood við sem stjórnarformaður af Marchionne.

Þegar Marchionne tók við Fiat fyrir 14 árum var það rekið með tapi, og framtíð þess leit ekki ýkja vel út. Í dag hefur það sameinast Chrysler og er orðið alþjóðlegur risi í bílaiðnaðinum.