Markaðshlutdeild sjálfsafgreiðslustöðva Atlantsolíu, Orkunnar og ÓB jókst úr því að vera um 61% í 78%, samkvæmt gögnum Meniga . Þriðjudaginn 18. janúar var veittur 14 krónu afsláttur á hvern lítra vegna gengis íslenska landsliðsins í handbolta.Hlutdeild félaganna á markaði eldsneytis jókst því um 17% á einum degi.

Í umfjöllun Meniga segir að niðurstaðan sé sú að neytendur séu almennt reiðubúnir að stökkva til þegar góður afsláttur er veittur á eldsneyti. Neyslugreiningin byggir á gögnum Meniga sem nær til 6% heimila í landinu.

Bent er á að ef verðbólga hafi verið mæld sama daga og lækkunin átti sér stað þá myndi það leiða til 0,5% lækkunar á vísitölu neysluverðs í janúar. Höfuðstóll 20 milljóna króna veðrtryggðs láns myndi lækka um 100 þúsund krónur við slíka breytingu. „Þessi lækkun myndi að öllu jöfnu ganga til baka í næsta mánuði en þetta myndi þó þýða lægri vaxtagreiðslur þennan mánuðinn“ segir í pistlinum.

„Strákarnar okkar eru því ekki einungis að rétta bak hnýpinnar þjóðar og blása lífi í veiklað þjóðarstolt heldur geta þeir hugsanlega haft bein áhrif á fjárhagslega stöðu þjóðarinnar.

Er því einhver furða að Gummi landsliðsþjálfari sé alltaf að tönglast á markatölunni?“

Grein Helga Benediktssonar, hugbúnaðarsérfræðings Meniga, má lesa í heild hér .