Hlutabréfamarkaðir lækkuðu nokkuð í Bandaríkjunum í dag en eins og áður kom fram í dag voru birtar mjög svo neikvæðar fréttir af þróun atvinnuleysis vestanhafs, sem nú mælist í 16 ára hámarki.

Bloomberg fréttaveitan hefur eftir fjölmörgum viðmælendum síunum að óttast er að atvinnuleysi eigi eftir að fjölga enn frekar en um 2,6 milljónir manna misstu vinnuna á árinu 2008, þar af 1,9 milljón síðustu fjóra mánuðina.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 2,8%, Dow Jones um 1,7% og S&P 500 um 2,1% og hefur S&P 500 þar með lækkað um 3,6% í þessari viku.

Olíuverð lækkað í dag en við lok markaða kostaði tunnan af hráolíu 40,92 Bandaríkjadali og hafði þá lækkað um 1,9%. Hráolíuverð hafði þó farið um tíma undir 40 dali eins og fram kom hér fyrr í dag.