Arion banki vinnur markvisst að því þessa dagana að losa um þriðjungseign sína í útgerðarfélaginu HB Granda. Bankanum er, samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, óheimilt að eiga hlut í fyrirtækjum í óskyldum rekstri til langs tíma.

Greining Íslandsbanka segist í dag búast við því að HB Grandi verði skráður á Aðallista Kauphallarinnar á næstu árum. „Félagið er af slíkri stærð að það stendur vel undir skráningu á aðallista en markaðsvirði félagsins á First North er 28 ma.kr.“ segir Greining Íslandsbanka. Stærstu hluthafar í dag eru Vogun hf, sem á 40%, og Arion banki. Hampiðjan á svo rétt innan við 10%. Vogun hf. er svo aftur í eigu fjölskyldu Árna Vilhjálmssonar og Hvals hf.

Í svari frá Arion banka segir að það komi vel til greina að skrá HB Granda á Aðallista Kauphallarinnar og það hafi í raun alltaf verið fyrsti kostur bankans. „Það er hins vegar ekki einvörðungu ákvörðun bankans heldur eitthvað sem aðrir hluthafa félagsins þurfa að styðja,“ segir í svari bankans við fyrirspurn VB.is.

Í svarinu segir jafnframt að Arion banki hafi frá því hann eignaðist þennan hlut í HB Granda lýst því yfir að hluturinn væri til sölu og sé hann listaður upp ásamt öðrum eignum sem eru til sölu á vef bankans. „Hins vegar má segja að það hafi ekki verið raunhæft að fá ásættanlegt verð fyrir hlutinn á meðan mikil óvissa var um þróun fiskveiðistjórnunarkefisins. Þeirri óvissu hefur nú að mestu verið eytt. Því hefur aukinn þungi færst í þessa vinnu. En það er rétt að geta þetta að bankinn hefur fengið tilboð sem hafa að mati bankans verið of lág, væntanlega m.a. í ljósi fyrrnefndrar óvissu,“ segir í svarinu.