Meirihlutinn í Reykjavík heldur velli samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið dagana 2. til 14. maí. Flokkarnir sem mynda núverandi meirihluta fá 13 borgarfulltrúa en minnsti meirihluti er 12 fulltrúar. Kosið verður laugardaginn 26. maí. Í könnuninni mælist Samfylkingin stærst með 31,2% fylgi og 9 borgarfulltrúa. Á eftir henni kemur Sjálfstæðisflokkur með 24,8% fylgi og 7 borgarfulltrúa og Píratar með 11,5% fylgi og 3 borgarfulltrúa.

Í síðustu könnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið dreifðist fylgi þessara þriggja flokka þannig að Sjálfstæðisflokkur fékk 29% og 8 borgarfulltrúa, Samfylkingin 29,9% og sömuleiðis 8 borgarfulltrúa og Píratar 13% og 3 borgarfulltrúa. Fjórir flokkar til viðbótar ná inn einum manni samkvæmt nýjustu könnuninni: VG með 6,7%, Viðreisn með 6,6%, Miðflokkurinn með 4,2% og Sósíalistaflokkurinn með 3,8%. Rætt er við oddvita fjögurra stærstu framboðanna í Viðskiptablaðinu í dag.

11,2% atkvæða falla dauð

Framsókn kemur þar á eftir með 3,3% atkvæða og engan borgarfulltrúa. 11,2% atkvæða falla dauð í könnuninni, en svarendur nefndu níu framboð sem ekki náðu inn manni. Næsti maður inn væri fulltrúi VG á kostnað Samfylkingarinnar en VG missir borgarfulltrúa milli kannana. Samkvæmt könnuninni bætir Samfylkingin nokkru við sig frá síðustu könnun og er nokkuð nærri kjörfylgi sem var 31,9%. Sjálfstæðisflokkurinn missir hins vegar fylgi milli kannana og er kominn undir 25,7%  kjörfylgi flokksins í kosningunum 2014.

Fylgistap VG heldur áfram en flokkurinn fékk 8,3% atkvæða í síðustu kosningum og um 20% fylgi í könnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið í júní í fyrra. Í könnuninni fékk Flokkur fólksins 2,9% fylgi, Kvennahreyfingin 2%, Borgin okkar – Reykjavík 1,4%, Karlalistinn 1,1%, Höfuðborgarlistinn 0,5%, Íslenska Þjóðfylkingin og Alþýðufylkingin 0,01% hvor og Frelsisflokkurinn 0% fylgi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Í neðanmálsgrein með blaði dagsins eru rangar upplýsingar um framkvæmd könnunarinnar. Eftirfarandi er rétt og hefur verið leiðrétt í pdf-útgáfu: Könnunin var gerð dagana 2. til 14. maí og var netkönnun. Úrtak könnunarinnar var 1.510, fjöldi svarenda var 862 og fjöldi svara 731. 648 svöruðu ekki og var þátttökuhlutfall 57,1%. 84,8% sögðust ætla að kjósa, 4,9% sögðust mundu skila auðu eða ekki kjósa, 6,7% tóku ekki afstöðu og 3,6% neituðu að svara. Könnunin náði til íbúa í Reykjavík, 18 ára og eldri og voru þeir handahófsvaldir úr Viðhorfshópi Gallup.