Í nýrri skýrslu Merrill Lynch, undir fyrirsögninni „Lausnin á banka“kreppu“ Íslands“, er lagt til að íslenska ríkið kaupi skuldir bankanna, að minnsta kosti að hluta, til að vinna bug á lausafjárvanda.

Í henni segir að alls ekki sé hægt að halda því fram að íslensku bankarnir hafi ekki nægt eigið fé. „Þar að auki er ekki snefill af sönnunum fyrir því að bankarnir eigi í vandræðum með gæði undirliggjandi eigna. Staða þeirra í skuldabréfavafningum er lítil eða engin, en lausafé er akkilesarhæll þeirra.

Markaðurinn er löngu hættur að velta fyrir sér hvort íslensku bankarnir eru gjaldfærir eða ekki. Markaðurinn telur að það sé meiri eða minni yfirvofandi hætta á innlánaáhlaupi á bankana. Nánar tiltekið, innlánaáhlaupi viðskiptavina og fyrirtækja. Þegar er fyrir hendi - mjög greinilega ef eitthvað er að marka skuldatryggingaálagið - stofnanalegt áhlaup á bankana,“ segir í skýrslunni.

Höfundur skýrslunnar, Richard Thomas, ályktar sem svo að lausn á þessum vanda felist í því að íslensk stjórnvöld kaupi skuld bankanna, eða að minnsta kosti hluta hennar, fyrir reiðufé. Þannig dragi það úr óvissunni og myndi verðgólf. Ýmsar leiðir séu færar; hægt sé að kaupa skuldina á markaðsverði, hægt sé að bjóða í hana á nafnverði eða bjóðast til að kaupa alla skuld sem er á gjalddaga á næstu þremur árum, allt í allt sem nemi 25 milljörðum evra, eða 3.000 milljörðum króna.

Þetta sé hægt að fjármagna með láni eða í gegnum lánalínur hjá norrænum seðlabönkum.

Ekki er þess getið í skýrslunni, en ef ríkið fjármagnaði skuldir íslensku bankanna á gjalddaga næstu þrjú árin, fyrir þrjár billjónir króna, næmi lántakan tæpum 10 milljónum króna á hvern Íslending.