Tekjur Stefnu hugbúnaðarhúss jukust um ríflega 28% milli ára og námu 755 milljónum króna í fyrra, sem var 20 ára afmælisár hugbúnaðarfyrirtækisins. Félagið, sem er með höfuðstöðvar á Akureyri, hagnaðist um 126 milljónir en afkoma félagsins hefur aldrei verið meiri.

Björn Gíslason, framkvæmdastjóri Stefnu, segir að félagið hafi verið í stöðugum vexti frá upphafi. Undanfarin áratug hafi árlegur vöxtur verið að meðaltali í kringum 15% en síðastliðin tvö ár hafi vöxturinn verið nær 30%.

„Við erum með tiltölulega litla yfirbyggingu og höfum reynt halda því þannig. Með auknum tekjuvexti þá hefur okkur tekist ágætlega að skila því niður reikninginn.“

Lykiltölur / Stefna

2023 2022
Tekjur 755 588
Eignir 349 254
Eigið fé 216 130
Hagnaður 126 70
- í milljónum króna

Birkir Bjarnason og KEA hluthafar

Í upphafi árs var greint frá því að samvinnufélagið KEA hefði fest kaup á 10% hlut í Stefnu og þar með stækkað hlut sinn í félaginu upp í 25%. KEA fjárfesti upphaflega í Stefnu árið 2021 en samhliða því keypti Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í fótbolta, 10% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu.

Þrátt fyrir ofangreindar breytingar á eignarhaldi félagsins er Stefna eftir sem áður að meirihluta í eigu starfsmanna félagsins.

Fréttin er hluti af nánari umfjöllun um starfsemi Stefnu sem birtist fyrst í Viðskiptablaði vikunnar.