Gengi hlutabréfa Haga féll um 2% í tæplega 980 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Gengið stóð í 25 krónum um hádegisbil í dag en lækkaði um 50 aura þegar viðskiptadagurinn var á enda.

Þá lækkaði gengi bréfa fasteignafélagsins Regins um 1,03%, stoðtækjafyrirtækisins Össurar um 0,49% og Marel um 0,32%

Á sama tíma hækkaði gengi bréfa fææreyska bankans Bank Nordik um 3,36% og Icelandair Group um 0,21%. Viðskipti upp á tæplega hálfan milljarð króna lá á bak við viðskiptin með bréf Icelandair Group.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,34% og endaði hún í 1.160 stigum. Heildarveltan með hlutabréf í Kauphöllinni nam rétt rúmum 1,8 milljörðum króna. Mesta veltan var með hlutabréf Haga og Icelandair Group eða upp á tæpa 1,5 milljarða.

Ítarlega er fjallað um hlutabréfamarkaðinn í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Fréttavefur Viðskiptablaðsins, vb.is , fjallaði sömuleiðis um þátt Íslandsbanka og viðskipti með hlutabréf Icelandair Group fyrr í dag.