Gengi hlutabréfa á Aðallista hækkaði hressilega í talsverðum viðskiptum í Kauphöllinni í dag og endaði gengi bréfa nokkurra fyrirtækja í hæstu hæðum.

Gengi bréfa Eimskips hækkaði um 2,84% í viðskiptum upp á tæplega 1,1 milljarð króna og endaði gengi bréfa félagsins í 272 krónum á hlut. Það hefur aldrei verið hærra. Þá hækkaði gengi bréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar um 2,45%, Haga um 1,36%, Marel um 1,27% og fasteignafélagsins Regins um 1,08%.

Á sama tíma hækkaði gengi bréfa Vodafone um 0,29%

Mestu viðskiptin voru sem fyrr sem með hlutabréf Eimskips. Á sama tíma nam velta með hlutabréf Icelandair Group 500 milljónum króna og Haga rétt rúmum 130 milljónum króna.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,7% og endaði hún í 1.215,5 stigum.