Velta með hlutabréf Icelandair Group nemur rúmum 879,5 milljónum króna það sem af er degi. Þetta er langmesta veltan á hlutabréfamarkaði í Kauphöllinni í dag. Gengi bréfa félagsins hefur hækkað um 2,53% og stendur gengið í 9,73 krónum á hlut. Það hefur ekki verið hærra síðan í mars árið 2009 þegar bréf félagsins voru á hraðri niðurleið í kjölfar bankahrunsins.

Það sem af er degi nemur heildarveltan í Kauphöllinni tæpum 1,2 milljörðum króna og nemur veltan með bréf Icelandair Group því rúmlega 76% af henni.

Næst mesta veltan er með hlutabréf Marel eða sem nemur 197 milljónum króna. Gengi bréfa Marel hefur hækkað um 1,31% það sem af er degi.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,81% og stendur vísitalan í 1.160 stigum.