„Þegar Fosshótel Reykjavík var opnað árið 2015 var ég aðstoðarhótelstjóri þannig að ég hef alltaf verið með mjög sterkar taugar hingað. Það er mjög gott að vera komin aftur heim," segir Thelma Theodórsdóttir, nýr hótelstjóri Fosshótel Reykjavíkur, stærsta hótels landsins.

„Ég lærði mikið af því að taka svo við stjórn Hótel Reykjavík Centrum sem er í miðbænum en umfangið er miklu meira hér á Fosshótel Reykjavík, þar sem við rekum einnig Bjórgarðinn og veitingastaðinn Haust, og þá hjálpar til að vera með góða deildarstjóra með sér. Hótelstjórar eru yfirleitt allt í öllu, það þarf að undirbúa vel komandi dag, en svo koma oft upp óvænt mál sem þarf að leysa. Að sjá allt ganga upp á endanum er eiginlega það sem ég elska við þennan bransa, sem og mannlega þáttinn. Starfið er jafnfjölbreytt og fólkið er margt, og stór hluti af því er að koma við alls staðar, vera sýnilegur og tala við fólkið sitt og vita hvað er í gangi."

Thelma hefur séð tímana tvenna í ferðaþjónustugeiranum á Íslandi. „Ég byrjaði mjög ung að vinna á hóteli eða 18 ára gömul í móttökunni á Flughóteli, Icelandair, hótelstjórinn þekkti til mín og vissi að ég var mjög þjónustulunduð og bauð mér að starfa með þeim. Þá var ferðamannabransinn ekki orðinn jafn umsvifamikill og hann er í dag og flestir starfsmennirnir íslenskir," segir Thelma.

„Þegar þekktur hótelskóli í Sviss bauð upp á að taka fyrsta árið hér á landi, þá í samstarfi við MK, þá ákvað ég að slá til. Það var æðislegt að fara í skólann úti eftir fyrsta árið, enda Sviss magnað land með gríðarlega náttúrufegurð. Ég saknaði þess reyndar að vera við sjóinn í Keflavík því allt í kringum litla bæinn Brig sem ég bjó í þarna úti gnæfðu risafjöll yfir. Þarna hitti maður fólk alls staðar að, en aðallærdómurinn af því var hvað við erum öll í grunninn lík. Hópurinn ferðaðist töluvert um, til að mynda til bæjarins Zermatt við rætur fjallsins Matterhorn, þar sem margir urðu mjög spenntir að sjá snjó í fyrsta sinn."

Thelma kennir einnig við námsbrautina hótel- og veitingarekstur, þá sömu og hún hafði farið í, sem nú er í Opna Háskólanum í Reykjavík. „Utan vinnu undirbý ég námsefni fyrir háskólann og svo á ég tvær duglegar stelpur sem æfa körfubolta, önnur er 9 ára og hin að verða 7. Við hlustum mikið á tónlist saman, mikið til gamla rokkið sem ég ólst upp við hjá foreldrum mínum og ég safna gömlum vínilplötum og er mikill Pink Floyd aðdáandi. Síðan vakna ég mjög snemma því ég vil eiga minn tíma á morgnana og fer þá út að skokka."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .