Fyrstu þrjá mánuði ársins fluttust til landsins 2.574 manns á meðan 798 fluttust á brott. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum Hagstofunnar og vitnað er til í vefriti fjármálaráðuneytisins.

Landsmönnum fjölgaði af þessum orsökum um nær átján hundruð manns á tímabilinu. Í vefriti fjármálaráðuneytisins er bent á að þannig hafi sá mikli aðflutningur sem einkenndi síðari hluta ársins 2005 haldið áfram í upphafi þessa árs. Stærsti hópur aðfluttra frá útlöndum hefur flutt á höfuðborgarsvæðið, eða um 800 manns, en tæplega 700 manns fluttu til Austfjarða.

Fjármálaráðuneytið bendir á að höfuðborgarsvæðið sé á ný farið að taka á móti fleirum sem koma til landsins en þaðan flytja. "Til samanburðar fluttust örlítið fleiri frá svæðinu innanlands en til þess á síðasta ári. Suðurland og Suðurnes fá einnig til sín fólk með þessum hætti en í öðrum landshlutum fækkar fólki vegna flutninga innanlands. Á Suðurlandi er raunar einvörðungu um að ræða aukningu í Árborg og Hveragerði. Fækkun vegna flutninga innanlands á einnig við um Austurland. Var raunar einnig svo í fyrra í flestum sveitarfélögum öðrum en á Fljótsdalshéraði. Uppbygging stóriðjunnar eystra er því enn ekki farin að hafa teljandi áhrif á íbúaþróunina."