Ársreikningur PPH ehf., félags sem var stofnað á fyrri hluta árs 2021 utan um fjárfestingar í 100% eignarhlutum í Pizza-Pizza ehf., umboðsaðila Domino's á Íslandi og fasteignafélaginu BHB fasteignir ehf., kom út á dögunum.

Velta félagsins nam tæplega 3,5 milljörðum króna á tímabilinu júní til desember 2021. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði nam 78 milljónum króna og hagnaður ársins eftir fjármagnsliði og skatt nam 14 milljónum króna.

Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóri Domino's á Íslandi, segir reksturinn hafa gengið vel frá eigendaskiptum. „Það hefur verið mikill uppgangur á félaginu frá því að við tókum við fyrir 10 mánuðum síðan, og nokkrir metmánuðir verið í veltu. Við fórum í aðgerðir sem hafa skilað góðum árangri, t.d. í markaðsmálum og í einföldun á vöruúrvali."

Magnús bætir við að samkvæmt árlegri Gallup könnun hafi markaðshlutdeild Domino's aukist hér á landi á milli ára í fyrsta skipti í 4 ár. „Við erum að sjá að okkar hópur er að stækka á milli ára og við erum mjög sátt með það."

Keyptu á 8 milljarða en seldu á 2,4 milljarða

Birgir Bieldvedt leiddi hóp fjárfesta sem keypti Domino's á Íslandi fyrir rúmlega ári síðan, en gengið var frá eigendaskiptum 31. maí 2021. Fyrri eigandi, Domino's Pizza Group plc í Bretlandi, hafði sett íslenska rekstrarfélag Domino's í formlegt söluferli árið 2020, en félagið keypti Domino's á ríflega 8 milljarða króna í tveimur áföngum, árin 2016 og 2017, af Birgi og öðrum hluthöfum.

Birgir og félagar keyptu síðan Domino's á 2,4 milljarða króna í fyrra og tapaði breska félagið því töluverðum fjármunum á fjárfestingu sinni. Birgir hefur einnig tekið yfir rekstur Domino's í Svíþjóð af Domino's Pizza Group plc og er minnihlutaeigandi í Domino's í Noregi.

Sjá einnig: Domino's á markað?

Domino's rekur 23 veitingastaði á Íslandi. Fyrir um ári síðan, þegar gengið var frá kaupunum á félaginu, taldi Birgir tækifæri felast í því að fjölga Domino's veitingastöðum hérlendis úr 23 í 30. Þannig væri meðal annars hægt að lækka launakostnað og minnka heimsendingarsvæðin.

Magnús segir þetta gott markmið með tíð og tíma. „Við sjáum fyrir okkur í náinni framtíð að opna þrjá staði á næstu tveimur árum. Þar kemur vel til greina að opna stað á Hlíðarenda, sem er hverfi í mikilli uppbyggingu. Einnig má nefna Ártúnshöfðann og Grafarholtið. Við erum tilbúin að stökkva á rétta tækifærið," segir Magnús.

Magnús segir Domino's sífellt vera að færa reksturinn í átt stafrænna lausna. „90% af öllum pöntunum fara í gegnum vef eða appið og 75% er nú fyrirframgreitt." Hann bætir við að verið sé að innleiða gervigreind á bak við Domino's vefinn til að einfalda líf viðskiptavinarins.