Hugbúnaðarrisinn Microsoft hagnaðist um 10,8 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og jókst hagnaður fyrirtækisins um 22% frá sama tímabili í fyrra samkvæmt uppgjöri sem birt var eftir lokun markaða í gær.

Tekjur á tímabilinu námu 35 milljörðum dollara og jukust um 15% frá sama tímabili í fyrra auk þess sem rekstarhagnaður nam 13 milljörðum og jókst um 25%.

Samkvæmt frétt Reuters má rekja aukinn tekjuvöxt og betri afkomu til skýjaþjónustu fyrirtækisins en tekjur af henni námu 12,3 milljörðum dollara og jukust um 27% milli ára.

Hlutabréfaverð Microsoft hefur hækkað um 11% það sem af er ári þrátt fyrir að hafa lækkað töluvert eftir að heimsfaraldurinn hófst. Markaðsvirði félagsins stendur nú í 1.360 milljörðum dollara og er um 5,4% lægra en það var þegar það náði hámarki 10 febrúar síðastliðinn.