Eigendur Milestone greiddu sér 478 milljónir króna í arð í árslok 2008 þrátt fyrir að óráðstafað eigið fé félagsins hafi verið neikvætt um rúma 80 milljarða króna á þeim tíma. Þetta kemur fram í fram í skýrslu skiptastjóra þrotabús Milestone, Gríms Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, um hag búsins sem kynnt var fyrir kröfuhöfum fyrir um viku síðan. Félagið var þá þegar í miklum vandræðum í kjölfar bankahrunsins. Milestone var síðan tekið til gjaldþrotaskipta í haust. Helstu eigendur Milestone voru bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir.

Í skýrslunni kemur fram að í febrúar 2008 hafi verið tekin ákvörðun um að greiða tvo milljarða króna í arð til eigenda Milestone vegna frammistöðu á árinu 2007. Sú ákvörðun var endurupptekin í lok árs 2008 og eigendunum þá greiddar 478 milljónir króna með því að færa upphæðina á viðskiptareikning eigendanna. Í skýrslunni segir að „á þessum tíma (þ.e. í lok árs 2008) var óráðstafað eigið fé félagsins neikvætt um rúma 80 milljarða króna. Skilyrði til arðgreiðslna voru þá væntanlega ekki til staðar.“

Búið að rifta einum gerningi

Eignir Milestone eru einungis brotabrot af skuldum félagsins, en þær nema um 95 milljörðum króna samkvæmt lýstum kröfum í búið. Í skýrslu skiptastjóra kemur fram að Milestone hafi átt um 460 milljónir króna á bankareikningum þegar félagið fór í þrot, en þar af hafi um 310 milljónir króna verið handveðsettir Glitni vegna 1,7 milljarða króna láns sem Milestone fékk hjá bankanum 1. maí 2006. Þessari veðsetningu hefur verið rift af skiptastjóra búsins og kröfu upp á sömu upphæð lýst í bú Glitnis. Um er að ræða einu riftun á gerningi Milestone sem þegar er búið er fara fram á. Ernst & Young hefur verið ráðið til að vinna rannsókn um rekstur Milestone og stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki á næstu vikum. Hana á síðan að kynna á skiptafundi með kröfuhöfum sem haldinn verður 25. janúar 2010. Þá mun afstaða til annarra mögulega riftanlegra gerninga liggja fyrir, en hún grundvallast á niðurstöðum Ernst & Young.

Í skýrslu skiptastjóra kemur fram að rannsókn Ernst & Young um rekstur Milestone hafi reynst „yfirgripsmeiri og flóknari en gert var ráð fyrir í upphafi.“ Því væri stefnt að því að ljúka þeirri rannsókn á næstu vikum og kynna hana á skiptafundi með kröfuhöfum sem haldinn verður 25. janúar 2010.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .