*

mánudagur, 28. september 2020
Innlent 4. mars 2020 09:32

Minna veitt en aflinn samt verðmætari

Árið 2019 veiddust 211 þúsund færri tonn en árið áður, en heildarverðmæti aflans nam 145 milljörðum króna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Heildarafli íslenskra skipa var 211 þúsund tonnum minni á síðasta ári en árið 2018, á sama tíma og verðmætið hans var 17 milljörðum króna meiri, eða í heild 145 milljarðar króna, að því er fram kemur í nýjum tölum Hagstofu Íslands.

Heildaraflinn árið 2019 nam 1.048 þúsund tonnum, en hann var 1.259 þúsund tonn árið 2018. Skýrist það að langmestu af mun minni uppsjávarafla enda engin loðnuveiði síðasta ár, en einnig veiddist minna af kolmunna og makríl en árið 2018.

Ríflega 534 þúsund tonn veiddust af uppsjárvarafla samanborið við 739 þúsund tonn árið 2018. Verðmæti uppsjávartegunda nam 21,6 milljörðum á síðasta ári og dróst saman um 11,6% frá fyrr ári.

Afli botnfisktegunda var tæplega 481 þúsund tonn á síðasta ári sem er álíka mikið og veiddist árið 2018. Aflaverðmæti botnfisktegunda jókst hins vegar um 23,7% á milli ára og nam ríflega 112 milljörðum árið 2019.

Af botnfisktegundum var þorskur sem fyrr verðmætasta tegundin en af honum veiddust 273 þúsund tonn árið 2019 og nam verðmæti þess afla úr sjó um 70 milljörðum króna.