Útlit er fyrir að munur skammtímavaxta milli Íslands og viðskiptalanda okkar muni minnka verulega þegar líður á næsta ár, og mun minnkandi vaxtamunur líklega skapa þrýsting til lækkunar gengis krónunnar, segir greiningardeild Glitnis.

?Ef borin er saman spá okkar um stýrivaxtaþróun á Íslandi næstu misseri, og spár erlendra greiningaraðila sem Reuters safnar saman um þróun stýrivaxta á Evrusvæði, í Bandaríkjum, Bretlandi, Japan og Sviss virðist raunar líklegt að vaxtamunur skammtímavaxta komi frekar til með að ráðast af þróun hérlendis en í viðskiptalöndum Íslands. Sveiflur í vöxtum hafa vitaskuld verið mun meiri hér á landi en á stærstu myntsvæðum, og að líkum verður svo áfram næstu misserin," segir greiningardeildin.

Gæti minnkað um rúm 4 prósentustig

Það er um 10% munur á skammtímavöxtum, milli íslands og helstu viðskiptalanda og telja má líklegt að svo verði fram að fyrstu mánuðum á komandi ári.

"þá tekur hann að minnka nokkuð hratt, gangi spá okkar um lækkandi stýrivexti hér á landi eftir. Reiknum við með því að Seðlabankinn fari með stýrivexti sína úr 14,25% í 10% frá upphafi til loka næsta árs.

Í Bandaríkjunum er spáð að stýrivextir lækki heldur frá núverandi vaxtastigi, en á Evrusvæði, í Japan og Sviss er búist við nokkurri hækkun, og einnig spá menn lítilsháttar hærri stýrivöxtum í Bretlandi á næsta ári.

Viðskiptavegnir skammtímavextir erlendis verða þannig u.þ.b. 0,25 prósentustigum hærri í lok næsta árs en nú er miðað við ofangreindar spár. Stýrivextir á Íslandi verða hins vegar 4 prósentustigum lægri í árslok 2007 en nú er raunin, gangi okkar stýrivaxtaspá eftir. Samkvæmt því minnkar vaxtamunur á stysta enda vaxtarófsins um 4 prósentustig og fer úr 10% í tæp 6% á tímabilinu," segir greiningardeildin.

Þrýstir á lækkun krónu

Fari vaxtamunnur minnkandi, má telja líklegt að gengi krónu fari lækkandi. "Þótt 6% vaxtamunur sé talsvert hár verður að hafa í huga að erlendir fjárfestar líta ekki aðeins til Íslands heldur eru fjárfestingar hér gjarnan bornar saman við önnur hávaxtalönd. Því er líklegt að hluti þeirra sem hvað kvikast færa fjármuni sína milli mismunandi eigna og landa fari að hugsa sér til hreyfings þegar kemur fram á næsta ár, en líklegt er að slíkir skammtímafjárfestar séu nú stærri hluti erlendra eigenda íslenskra skuldaskjala en oft áður. Við gerum ráð fyrir að gengi krónunnar verði að meðaltali nokkuð lægra á næsta ári en þessu þótt ekki sé um verulega breytingu að ræða.