Á meðan Nasdaq hækkaði í dag um 0,19% lækkuðu bæði Dow Jones um 0,19% og Standard & Poor's um 0,14%.

Það eru fyrst og fremst vonbrigði með jólaverslun sem virðist vera að hafa áhrif á markaðinn að því er bæði Bloomberg.com og WSJ greina frá. Salan er undir væntingum nú þriðja daginn í röð og aðeins örfáir dagar eftir af jólaösinni. Target lækkaði um 2,8% og Macy's um 3,9%. Fleiri verslunarkeðjur voru á svipuðu róli í lækkun.

Morgan Stanley gaf út afkomuviðvörun fyrir fjórða ársfjórðung en hækkaði engu að síður um 4%. Tap fyrirtækisins er 3,61 bandaríkjadalur á hvern hlut og orsakast fyrst og fremst af 5,7 milljörðum bandaríkjadala sem fyrirtækið þurfti nýlega að afskrifa til viðbótar við það sem áður hafði verið tilkynnt en bankinn kemur til með að afskrifa um 9,4 milljarða dala á fjórða ársfjórðungi.