Gengið verður til kosninga í Bretlandi í dag og talsvert hefur dregið saman á milli Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins á undanförnum dögum. Líklegt er að kosningaþátttaka ungs fólks muni skipta sköpum fyrir niðurstöðuna í dag, ef að ungt fólk mætir á kjörstað er líklegra að Verkamannaflokkurinn nái góðri niðurstöðu og öfugt. Eins og sakir standa þá eru Íhaldsmenn með 330 sæti í þinginu - sem þýðir að þeir hafi hreinan meirihluta.

Ef litið er til grafsins hér að neðan, er hægt að sjá hversu mikið Verkamannaflokkurinn hefur sótt á síðastliðna mánuði. Þegar Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, boðaði óvænt til kosninga , mældist Íhaldsflokkurinn með nálega 50% fylgi, samanborið við tæplega 25% fylgi Verkamannaflokksins. Hins vegar hefur staðan gjörbreyst, og nú mælist Íhaldsflokkurinn á bilinu 40 til 46% en Verkamannaflokkurinn á bilinu 33 til 39%. Til að mynda þá mældust flokkarnir tveir nánast jafnir í nýrri könnun Survation sem framkvæmd var sjötta til sjöunda júní, eða í gær og fyrradag.

Kjörstaðir opnuð klukkan sjö í morgun og loka klukkan 10 í kvöld. Alls geta tæplega 47 milljónir manns kosið. Þingsætin sem í boði eru 650 talsins. Til þess að ná hreinum meirihluta verður að vinna 326 sæti á þinginu. Kosningakerfið í Bretlandi er oft nefnt „first-past-the-post“ sem þýðir að flokkar þurfa að vinna hvert þingsæti fyrir sig, og þar er það meirihlutareglan sem ræður.