Rannsóknarfyrirtækin Maskína og MMR munu sameinast á nýársdag næstkomandi undir hatti Maskínu, samkvæmt tilkynningu.

„Grunngildi fyrirtækjanna voru þau sömu, fyrst og fremst vönduð vinnubrögð, þó að áherslur í rannsóknum væru nokkuð ólíkar. Þekking sameinaðs fyrirtækis verður meiri og breiðari og við hlökkum til að takast á við nýjar áskoranir og nýsköpun í síbreytilegu umhverfi viðskiptalífsins,“ er haft eftir Þóru Ásgeirsdóttir framkvæmdastjóra Maskínu.

Þóra stofnaði, ásamt dr. Þorláki Karlssyni rannsóknarstjóra, Maskínu árið 2010 en þau hafa bæði starfað við kannanir í áratugi.

Ólafur Þór Gylfason, sem stofnaði MMR fyrir 15 árum síðan, verður sviðsstjóri markaðsrannsókna, en hann hafði áður unnið sem stjórnandi rannsókna fyrir mörg af helstu markaðsfyrirtækjum heims, að því er fram kemur.

Ólafur segir að nýsköpun í rannsóknum hafi aldrei verið mikilvægari og að sameiningin geri félagið enn frekar í stakk búið til að taka forystu á því sviði.