Narendra Modi forsætisráðherra Indlands hefur heitið því að afnema umdeild landbúnaðarlög sem ríkisstjórn hans setti á síðasta ári og var ætlað að auka frelsi og draga úr niðurgreiðslum í greininni.

Nær linnulaus og sífellt háværari mótmæli hafa staðið yfir síðan lögin voru sett, sem farin voru að ógna stöðu ríkisstjórnarflokksins, BJP, í mikilvægum kosningum í byrjun næsta árs.

Hæst hafa mótmælin verið í fylkjunum Púnjab og Uttar Pradesh, en þau eru í umfjöllun BBC um málið sögð geta skipt sköpum í kosningunum. Í dag halda Síkar – trúarbrögð sem eiga rætur sínar að rekja til Púnjab-héraðs og meirihluti íbúa þess aðhyllist þau – upp á fæðingardag fyrsta Sík gúrúsins, Guru Nanak, sem margir vilja meina að sé ekki tilviljun.

Þunglamalegur lagarammi haldið aftur af framþróun
Yfir helmingur Indverja vinnur í landbúnaði, og margir upplifa lífsviðurværi sínu ógnað af nýju lögunum. Umbætur á landbúnaðarkerfinu hafa lengi verið til umræðu. Núverandi kerfi byggir á miklum niðurgreiðslum, undanþágu frá tekjuskatti, uppskerutryggingu, ríkistryggðu lágmarksafurðaverði, afskriftum skulda og 7 þúsund ríkisreknum heildsölumörkuðum um allt land.

Úrelt og óhagkvæm framleiðslutækni hefur lengi háð greininni, og framleiðni hennar hefur farið fallandi. Tekjur af landbúnaði hafa að sama skapi dregist saman. Hugsunin með nýju löggjöfinni var að auka frjálsræði og leyfa bændum að selja beint til annarra einkaaðila og gefa verðlagningu frjálsa. Ríkisstjórn Modi er hinsvegar sögð hafa miðað lítið áfram með að innleiða nýja kerfið þrátt fyrir nýju lögin í fyrra.

Ýmis löggjöf sem þurfi til að hrinda umbótunum í framkvæmd hafi tafist eða mistekist vegna fljótfærnislegra vinnubragða og skorti á samvinnu við stjórnarandstöðuna. Með yfirlýsingunni hafi Modi viljað snúa vörn í sókn og slá vopnin úr höndum pólitískra andstæðinga fyrir kosningarnar á næsta ári.