Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur birt færslu á Facebook síðu sinni þar sem hún mótmælir áformum um að rífa gömlu Sundhöllina í Keflavík. Sunhöllin var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni árið 1937 og hvetur Ragnheiður Elín aðra til þess að senda einnig inn athugasemd við deiliskipulagsbreytinguna.

„Húsið er eitt af þremur hér í bænum sem teiknuð eru af Guðjóni Samúelssyni og er því mikilvægt í byggingarsögulegu samhengi. Þrátt fyrir að Bárður Ísleifsson hafi einnig komið að hönnun hússins á sínum tíma ber húsið skýrt höfundareinkenni Guðjóns og var stórfalleg bygging. Breytingar sem gerðar hafa verið í gegnum tíðina hafa ekki allar verið vel heppnaðar en þær eru afturkræfar,“ segir Ragnheiður Elín í færslunni.

Þá vitnar hún einnig til bréfs Minjastofnunar um húsið en þar segir stofnunin að byggingin sé varðveisluverð bæði frá sjónarhóli byggingarsögu og vegna menningarsögulegs gildis um bað- og sundmenningu Íslendinga og Keflvíkinga á fyrri hluta 20. aldar. Þó sé það í höndum sveitarfélagsins að ákvarða um framtíð þess.