MP banki hefur selt 26,8% hlut sinn í rekstrarfélaginu GAM Management [GAMMA] til nokkurra annarra hluthafa GAMMA, nýs hluthafa úr hópi núverandi starfsmanna og félagsins sjálfs. Samkvæmt upplýsingum VB.is er nýi hluthafinn Lýður Þ. Þorgeirsson verkfræðingur sem hefur starfað hjá fyrirtækinu um skeið.

GAMMA er rekstrarfélag verðbréfasjóða sem, þeir Gísli Hauksson hagfræðingur og Agnar Tómas Möller verkfræðingur stofnuðu á miðju ári 2008. Starfsmenn GAMMA voru fyrir kaupin meirihlutaeigendur félagsins. Í tilkynningu kemur fram að söluverð hlutarins er trúnaðarmál.

„Salan er liður í að einfalda eignasafn bankans. Rekstur félagsins er góður og uppbygging þess hefur gengið vel. Við óskum eigendum og starfsmönnum GAMMA velfarnaðar við áframhaldandi uppbyggingu félagsins.“ segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, í tilkynningu.

Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAMMA, segir í tilkynningunni að kaupin séu mjög jákvæð fyrir GAMMA og styrki sérstöðu félagsins sem óháðs fjármálafyrirtækis. Vöxtur félagsins hafi verið mikill á síðustu árum og reksturinn góður. „Við horfum björtum augum fram á veginn og þökkum MP banka fyrir samstarfið í gegnum árin,“ segir hann.