*

sunnudagur, 23. janúar 2022
Innlent 22. október 2021 13:22

N1 opnar þjónustustöð við Mývatn

N1 vinnur að því að opna þjónustustöð við Mývatn sem opna í vor.

Ritstjórn
Aðsend mynd

N1 vinnur nú að opnun þjónustustöðvar við Mývatn sem hefja á rekstur næsta vor samkvæmt tilkynningu frá félaginu. Á þjónustustöðinni verður boðið upp á eldsneyti, hraðhleðslu fyrir rafmagnsbíla, veitingar, vörur og þjónustu sem snýr að þeim sem eru á ferðinni um landið.

„N1 hefur unnið að því að þétta enn frekar stærsta þjónustunet landsins við þjóðvegakerfið og opnun þessarar þjónustustöðvar er liður í því. Við teljum mikilvægt að þeir sem eru á ferðinni geti sótt sér alla þá orku sem nauðsynleg er, hvort sem er í formi eldsneytis, rafmagns eða veitinga og við erum sannfærð um að ferðalangar kunni að meta að geta sótt sér þá þjónustu á þessum stað,“ segir Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1 í tilkynninguna

Á þjónustustöðinni verður að finna minnst eina 200kw hraðhleðsustöð en reiknað er með að þær verði allt að þrjár talsins í framtíðinni. 

„Mývatn verður sífellt vinsælli áfangastaður og því liggur beint við að auka þjónustu okkar þar,“ segir Hinrik Örn.

Nú þegar eru hraðhleðslustöðvar við Skógarlind, Háholt, á Hvolsvelli, í Borgarnesi, á Blönduósi, Staðarskála, Vík, Egilsstöðum, Sauðárkróki, Ísafirði og Kirkjubæjarklaustri. Nýja þjónustustöðin verður svo á Hraunvegi 8 við Mývatn.